Wednesday, June 6, 2012

Latasti bloggari í heimi...

...en búin að vera ágætlega dugleg að prjóna :)

Áramótaheitið mjakast áfram, búin með 5 pör af þeim 12 sem ég hét að prjóna úr stashinu.

Febrúarvettlingarnir (handstúkurnar): prjónaðar úr Trysil superwash ullargarni úr Europris á prjóna nr. 3.5.  Uppskrift héðan: http://www.ravelry.com/patterns/library/honeycomb-wrist-warmers-in-colours


Marsvettlingarnir: prjónaðir úr kambgarni á prjóna nr. 3.0, uppskrift héðan:  http://www.ravelry.com/patterns/library/126-3-mittens-with-pattern-in-delight-and-fabel


Aprílvettlingarnir:  prjónaðir úr léttlopa á prjóna nr. 4.0, uppskrift héðan:  http://www.ravelry.com/patterns/library/herringbone-mittens-with-poms


Og maívettlingarnir:  prjónaðir úr Trysil superwash ullargarni úr Europris á prjóna nr. 3.0, uppskrift héðan: http://www.ravelry.com/patterns/library/rigmors-selbu-mittens-5th-pair  
Þessir voru mjög skemmtilegir og nú langar mig að prjóna fleiri norska selbuvettlinga :)

Þá er að ákveða júnívettlingana... ég hef það á tilfinningunni að þegar ég hef lokið við áramótaheitið muni ég ekki prjóna vettlinga aftur á næstunni... en ég og mínir verðum amk ekki með kalda fingur næstu vetur ;)

Monday, February 27, 2012

Bloggleti og barnateppi.

Ég er með ýmislegt á prjónunum þessa dagana, en ekkert fullklárað af viti.   "Operation stashbusting" er þó í fullum gangi og ég reyni að gera sem mest úr birgðinum mínum (þó ég hafi neyðst til að kaupa eina og eina dokku...hömm).

Góð vinkona mín á von á barni í vor og ég prjónaði barnateppi fyrir væntanlegt kríli - uppskriftin er héðan:  http://www.pickles.no/bring-it-on-baby-blanket/  mjög skemmtileg og einföld.  Ég notaði kambgarn úr birgðunum mínum og prjóna nr. 5, litirnir eru dálítið retró (brúnn, gulur, appelsínugulur og grænn) og ég held að það sé til mynd af mér í peysu í nákvæmlega þessum litum, árið 1974 ;)




Ég var ekki alveg sátt við kantinn, svo ég heklaði með brúnu meðfram hliðunum og fannst það koma miklu betur út.   Skemmtileg uppskrift og ég prjóna örugglega annað svona seinna, en ég held að það komi enn betur út með stærri prjónum (5,5 eða 6).

Tuesday, January 24, 2012

Ugla sat á kvisti.

Mér finnst uglur æði.   Veit ekki afhverju, þær eru bara eitthvað svo krúttlegar og gáfulegar.          
 Hef samt heyrt að þær séu í raun ekkert sérstaklega vel gefnar...  En eníhúúú - hér er Olli ugla!






Uppskriftin er héðan: http://www.purlbee.com/big-snowy-owl/   nema Olli er töluvert minni, prjónaður úr þreföldum plötulopa (tveir mismunandi brúnir litir og einn hvítur þráður) á prjóna nr. 6.   Í uppskriftinni eru augun prjónuð en ég heklaði þau, notaði kambgarn í augu og gogg.    

Ég veit ekki alveg hvar Olli endar, kannski bara sem púði ef ég tími ekki að gefa hann - amk er heimiliskötturinn Enja afskaplega ánægð með félagsskapinn :)



Monday, January 23, 2012

Af garnsöfnun og áramótaheiti...

Ég kaupi aldrei garn.  Ónei.   Skildi ekkert í því þegar garn fór að detta út úr skápum, kíkja uppúr skúffum og flækjast um íbúðina í pokum og töskum.    Svo í dugnaðarkasti eftir áramótin fór ég í Ikea og keypti nokkra plastkassa, safnaði saman garninu og flokkaði í kassa..


Jamm.  Pínu garn.  Stór kassi af plötulopa, í minni kössunum er svo léttlopi, kambgarn, einband, bómullargarn - og einn kassi af "allskonar".  

Ég ákvað að verða ströng við sjálfa mig.  Nú skal gengið á garnbirgðirnar!   Áramótaheitið er að minnka stashið (eða amk ekki leyfa því að stækka mikið...) og prjóna sem mest úr birgðunum.   Og til að hafa þetta hnitmiðað þá tilkynnti ég að á árinu myndi ég prjóna tólf pör af vettlingum - eitt á mánuði, aldrei sama uppskriftin tvisvar - og nota bara garn úr stashinu.

Janúarparið er tilbúið:  Vettlingar með áttblaðarós úr tvöföldum plötulopa.


Bara ellefu pör enn!   ..og ég reyni að leiða hjá mér allt fallega garnið í búðunum sem hvíslar "keyptu mig".

Sunday, January 22, 2012

Einn, tveir og byrja...

Þetta blogg er aðallega hugsað til að halda utan um handavinnuna mína, deila hugmyndum og safna myndum á einn stað.  Ég hef hingað til sett allar myndir á Ravelry síðuna mína eða á Facebook - en bloggið býður upp á meiri möguleika á að "hugsa upphátt" um handavinnu, án þess að angra þá fésbókarvini mína sem gæti ekki verið meira sama um prjónaskap ;)